Vipassanna: 10 daga þagnaðarbindindi í Nepal

Mig að deila með ykkur litlu ævintýri sem ég fór á í sumar. Á 35 metra dýpi í Filippseyjum fékk ég þá hugljómun að reyna loksins á svokallað Vipassana. Mig hafði aldrei liðið eins og ég væri tilbúin í Vipassana en þarna fékk ég einhver skilaboð að þetta væri tíminn… Og að ég ætti að ganga í gegnum Vipassana í Nepal. Afhverju ? Ekki hugmynd. En svona er lífið. Það þarf ekki að hafa ástæðu fyrir öllu.

Hvað er Vipassana?

Vipassana er ca 3000 ára búddísk hugleiðsluaðferð þar sem maður lokar sig af í 10 daga frá umheiminum og tileinkar tímanum sínum að því að huga að huganum. Í Vipassana eigum við að horfast í augu og sigrast á þjáningum okkar.

Í Vipassana er tekið af þer öll veraldleg gæði.

Konum og körlum eru haldin í sundur.

Þú átt ekki að tala við neinn. Þú átt ekki að snerta neinn. Þú átt ekki að horfa í augun á neinum.

Þú mátt ekki hafa nein raftæki. Ekkert internet,  engir símar.  Þú mátt ekki hafa tónlist eða bækur. Þú mátt varla nota sápu. Þú borðar einungis tvisvar á dag og það fyrir hádegi.  Þú mátt heldur ekki stunda neina líkamsrækt (ekki einu sinni jóga!).

Þú átt einfaldlega að sitja í hugleiðslu í 10 klukkutíma á dag. Í sömu stellingunni. Í sama sætinu og einfaldlega feisa sjálfan þig. Þú getur ekki falið þig neinstaðar!

Lærdómurinn? Allt breytist. Ekkert varir….. ekkert varir… ekkert varir… 

Vipassana tók mig til heljarinnar og til baka…Og ég gæti ekki mælt meira með þessu!Upplifun mín af Vipassana

Þrátt fyrir að ég hafði heyrt mikði um Vipassanna þá hafði ekkert af því sem ég hafði heyrt af getað undirbúið mig fyrir þetta ferðalag.

Dagur 1

Ég skila af mér öllu því sem ég á og segi bless við félagann minn sem ákvað að fara í þetta ferðalag með mér.

Ég upplifi instant regret.  Ég er ekki tilbúin í þetta. Mér er úthlutað klefa sem er algjörlega uppvið klósettaðstöðuna á setrinu.  Næstu 10 dagana mun ég finna fyrir ÖLLU því sem fer fram þarna hinumegin við vegginn minn. Öll lykt. Öll búkhljóð. Allt beint í æð og það er ekkert sem ég get gert.

Næstu 10 dagana bý ég í Nepölsku klósetti með 12 öðrum Nepölskum konum. Ég er eini kvennmans útlendingurinn og sjálfboðaliðarnir (eina fólkið sem maður má tala við ef eitthvað er virkilega að) tala EKKI ensku.

Og ekki nóg með það, heldur er setrið í miðjum frumskógi LENGST ÚTÍ RASSGATI. Herbergið mitt er MEKKA köngulóa, slanga og myglu. Og það er ekkert sem ég get gert.

Það eina sem ég hef meðferðis eru auka föt og lítið Hello Kitty úr.

Strax á fyrsta degi fann ég fyrir hausnum á mér snúast og snúast og snúast. Ég trúði því ekki að ég hafi komið mér á þennan stað.  Þegar ég reyni að hugleiða þá fer ég bara að hugsa um allt lífið mitt.

Ég hugsa um fortíðina. Um atvinnur og peninga. Um fjölskylduna. Um allar þær ákvarðanir sem ég hef tekið. Um alla fyrrverandi makana mína. Um allt sem ég hef sagt og gert.  Ég hugsa um allt sem ég þekki í lífinu og contempleita það allt.

Svona er annars  stundataflan:

4:00 am Morgunbjalla

4:30-6:30 am Hugleiðsla í Salnum

6:30-8:00 amMorgunmatur

8:00-9:00 am

Hugleiðsla í Salnum

9:00-11:00 am

Hugleiðsla í Salnum

11:00-12:00 noon Hádegismatur

12noon-1:00 pmPása // Spurningar til kennara

1:00-2:30 pm Hugleiðsla í Salnum

2:30-3:30 pmHugleiðsla í salnum

3:30-5:00 pmHugleiðsla í salnum eða inni herbergi

5:00-6:00 pm Te tími

6:00-7:00 pmHugleiðsla í salnum

7:00-8:15 pmKennsla frá kennara & hugleiðsla

8:15-9:00 pm Hugleiðsla í Salnum

9:00-9:30 pmS purningar

9:30 pmAllir inn í herbergi. Ljós slökkt.

 

Dagur 2

Vakna við bjöllu sem mun koma til með að stjórna allri veröldinni minni næstu 10 daganna.  Allir inn í sal. Finn fyrir sterkri löngun til þess að strjúka.

Þar sem fyrsta hugleiðslan á sér stað klukkan 4:30 að morgni til í tvo klukkutíma þá sofna ég hér. Ég sofnaði ALLTAF í fyrstu hugleiðslunni. Hver vaknar klukkan 4:30 á morgnanna til þess að hugleiða??

Næstu klukkutímar eru helvíti.  Hér er ég nú þegar búin að sitja í 10 klst af hugleiðslu og á bara 90 eftir. Mig verkjar allstaðar í líkamann, sérstaklega mjaðmasvæðið og í bakið.  Ég bókstaflega skipti um stöðu hverja mínútu og næ ekki að einbeita mér.

…Og ég held áfram að hugsa. Ég hugsa um barneignir og skólagöngu. Ég hugsa enn meira um peninga og atvinnur. Ég hugsa heim til Seyðisfjarðar og allt fólkið sem ég þekki í lífinu.

Ég er stanslaust að kíkja yfir salinn en það virðist eins og allir séu með þetta nema ég.Dagur 3

Hvað er að þessum konum sem búa hérna með mér? Þær eru að BLAÐRA á milli tímanna og það truflar einbeitinguna mína að því að truflast ekki sjálf. Ekki nóg með það heldur stinga þær tannburstanum sínum í kokið í hverst skipti sem þær tannbursta sig og kúgast hressilega.  Afhverju eru  þær að þessu? Sumar æla jafnvel! Hvað er það?? Og þar sem ég bókstaflega bý inni í baðherberginu þá fæ ég öll þessi hljóð í æð.

Þær eru hóstandi, ræskjandi, BLAÐRANDI og ælandi ÚT Í EITT og í veröld þar sem ekkert hjóð ríkir þá MAGNAST þessi hljóð og ég er að BILAST. Venjulega er mér alveg sama um svona lagað en þetta var hreinlega ekki rétti tíminn fyrir svona.

Það er rigningatímabil og ég er í miðjum frumskógi. Moskítóflugurnar eru að éta mig lifandi og það er ekkert sem ég get gert í því. Bannað að vera með krem eða EITTHVAÐ til þess að vinna á kláðanum. Enda er það veraldlegur munaður sem er svo langt frá því að vera sjálfsagður.

Í fyrstu pásunni opna ég töskuna mína til þess að ná í ný föt og í hryllingnum mínum sé ég að allt sem ég á er GRÆNT. Allt er MYGLAÐ í töskunni minni og það er hræðilegt lykt sem gusar frá því!   Í algjörum æsingi ríf ég allt út og handþvæ allt sem ég á í panikki. Hengi síðan allt upp og næstu 8 dagana mun þetta dót aldrei verða þurrt þar sem rakinn er svo mikill.

Um 25 klukkustundir af hugleiðslu eru liðnir og núna sé ég að Chris hefur tekið til þeirra ráða að stilla sér upp við vegg sér til stuðnings.  Þetta kom mér mikið á óvart, því drengurinn hefur verið að hugleiða líklegast SAMFLEITT á hverjum degi 5 ár. Well, ef hann ætlar að fara upp við vegg, þá ætla ég upp við vegg.  Hvíla bakið.

Hér byrja ég að upplifa einkennilega hluti. Þegar ég loka augunum sé ég risastórar köngulær skríða niður eftir veggjunum innra með mér. Þeir sem þekkja mig vita ég ber vott af “triphophobia” . Í hvert skipti sem ég loka augunum sé ég ekkert nema ógeðslega hringi útum allt og það fríkar mig út. Og þegar ég sé ekki hringina þá sé ég köngulær. Ég skildi ekki hvaðan þetta var að koma.

Dagur 4

Einusinni á dag hnippir kennarinn í einn nemanda í einu til þess að tala við það. Kennarinn hnippir í félagann og spyr hann afhverju hann sast upp við vegginn?

Svo segir kennarinn :

” Seeking support to the wall  is only for those who have a dull mind- and you don’t have a dull mind”

Félagi fer þá aftur í sætið sitt. Og ég breyti mínu sæti líka. Ég er sko EKKI með dull mind!

Ég opna augun reglulega og lít í kringum mig: Hvernig eru allir að fara að þessu? Hvernig tekst öllum að sitja svona án þess að hreyfa sig?!

vipassana-2.jpg

Þennan dag gafst ég síðan upp á malinu í konunum. Í fyrsta skipti gef ég þeim merki að st*** kj***.  Okey… kanski ekki alveg en ég sussa svona frekar ákveðin á þær.. they got the hint.

Dagur 5

Hér upplifi ég líklegast mestu líkamlegu þjáninguna á þessu ferðalagi.  Ég sit með krosslagðar lappir og ég sver að þær eru að rifna af mér. Þvílika þjáningu hef ég bókstaflega aldrei upplifað á mjaðmasvæðinu. Innra með mér öskra ég og öskra og öskra og græt og græt og bölva. Ég hreinlega TRÚI EKKI þessum sársauka að sitja svona. En ég ætla ekkki að hreyfa mig. Ég ætla EKKI að hreyfa mig! Mér líður eins að það sé djöfull innra með mér sem er að snúa upp á mjaðmasvæðið mitt og er hreinlega að kveikja í því.  Þetta gengur á í svona 2 klukkustundir og ég helt að ég væri að lamast úr þjáningu.  Köngulærnar og hringirnir halda áfram að birtast mér.

Og svo…. allt í einu… out of nowhere… púff!!

Allur sársaukinn fór. Ég náði að losa eitthvað. Ég var frjáls!

Restina af deginum sat ég eins og engill á bleiku skýi , hreyfingalaus og alsæl. Í fyrsta skipti er þetta bara alveg OK!

Dagur 6

Ég vissi fyrirfram að fyrsti  og sjötti dagurinn áttu eftir  að verða erfðastir.  Ó boj.

Ég fékk algjöran viðbjóð. Viðbjóð af sjálfri mér. Lífinu mínu. Þessum stað. Jóga. Ég hataði allt og alla og var hættulega nálægt því að gefast upp. Þetta var allt tilgangslaust og allt sem ég hafði gert í lífinu var tilgangslaust. Ég hataði líkamann minn. Ég hataði líkamann minn og ég hataði líkamann minn.

Ég þráði snertingu. Ég þráði að tala við einhvern. Ég þráði contact við umheiminn. 

Þessum degi fékk ég að eyða með sjálfri mér í helvíti og þessi dagur ætlaði ALDREIIII að líða.  Í hverri pásu stari ég á Hello Kitty úrið sem ÖSKRAR : Tikk- tokk- tikk-tokk-tikk-tokk. 

Um kvöldið sagði kennarinn:

You survived your sixth day.  Congratulations. 

Dagur 7

Ég vakna á undan bjöllunni. Ég er fyrst inn í salinn. Ég sofna ekki í morgunhugleiðslunni. Hugleiðslunar fyrir hádegi líða á methraða. Hugleiðslurnar eru erfiðari eftir hádegi en ég finn þó ekki fyrir líkamlegum sársauka lengur.

Dagur 8

Ég er að upplifa mögnuðustu hluti. Ég loka augunum og mér líður eins og ég sit á hvolfi. Hringirnir og köngulærnar eru farnar.  Ég finn fyrir líkamanum svífa fyrir utan mig sjálfa.

Dagur 9

Ég finn fyrir stórkostlegu þakklæti. Ég er svo þakklát út í lífið og fyrir að gefa sjálfri mér þennan tíma til þess að fara í gegnum þetta. Ég er að springa úr ást innra með mér.   Í hvert skipti sem bjallan hringir langar mig ekki að standa upp. Mig langar bara að sitja og sitja og sitja.  10 klukkustundir af hugleiðslusetu? Pís of keik!

 

Dagur 10

Á tíunda degi eftir hádegi megum við byrja tala saman aftur en án þess að snertast. Ég vakna full tilhlökkunar að þetta sé síðasti dagurinn en hér var ég byrjuð að óska mér að ég ætti 10 daga í viðbót. Þvílikt bliss!

Ég sat bein í baki allar morgunhugleiðslurnar og leið vel. Við sátum til hádegis og í hádegismat var greinilega einhver svaka sparimatur í gangi. Þegar maður hefur verið í svona úr sambandi við umheiminn svona lengi þá byrjar maður að upplifa mat á allt öðruvísi hátt.

vipassana.jpg

Það var mikið hjal og mikill spenningur í fólki eftir hádegi. Það var skrítið að heyra röddina mína aftur og var hún frekar hás. Við vorum öll orðin frekar hvít eftir að hafa setið inni í allan þennan tíma og ég tók eftir því hversu mikið félagi minn var búinn að grennast.  Allt tal var stórkostlegt. Það var STÓRKOSTLEGT að tala upphátt, hlusta á sögur annarra og heyra hvað aðrir gengu í gegnum. Það var MAGNAÐ að horfa upp í himinn aftur og sjá alla litina í kringum sig. Ég bara hló og hló og hló og hló og kunni að meta lífið mitt upp á nýtt.

Vipassana er magnað ferðalag og það er í rauninni ekki hægt að líkja það við neitt annað. Fátt hefur heilað mig jafn mikið á jafn stuttum tíma og Vipassana og það hefur verið alveg geggjað að upplifa lífið mitt eftir þetta. Því miður er ekki hægt að fara í Vipassana hérna á Íslandi en þetta er annars í boði allstaðar í heiminum. Vipassana er frítt og gaf mér fullt af tólum til þess að fara með út í lífið.  Þeir sem hafa áhuga á því að lesa meira um Vipassana og langar jafnvel að skella sér geta skoðað heimasíðuna þeirra hér 

Augljóslega var ekki tekið mikið af myndum á meðan þessu stóð. En í endann tókum við konurnar eina og held ég mikið upp á hana 🙂